Nýtt meirihlutasamstarf í borginni

Ég hef miklar væntingar til nýs meirihlutasamstarfs í borginni. 

Ég hef líka miklar væntingar til þess að málefni grunnskólakennara verði ekki gleymd og sett á bið.

Vandi grunnskóla Reykjavíkur er mikill. Þreyta, leiði og mikið álag einkennir starf skólanna þessa dagana og algert vonleysi hefur gripið um sig á síðustu mánuðum. 

Vonleysi sem lýsir sér í því að margir kennarar skila inn uppsagnarbréfum um þessar mundir. 

Þeir trúa því ekki að vilji sé fyrir hendi að bæta kjör grunnskólakennara. 

Þeir upplifa að stjórnvöld vilji ekki koma til móts við þá og skilji ekki óánægju þeirra.

Í starfskönnunum sem gerðar eru í grunnskólum Reykjavíkurborgar annað hvert ár kemur fram mikil óánægja með laun og óeðlilegt álag. Þetta eru þættir sem ekki er hægt að laga innanhús með brosi og hrósi.  

Mörg dæmi eru um að foreldrar lýsi yfir áhyggjum sínum af kjörum kennarar. Hvorki þeir né skólastjórar geta hins vegar kippt þessum í liðinn. Það er hlutverk stjórnvalda. 

Þeir kennarar sem segja skilið við starfið eru búnir að missa alla von um að kjör þeirra verði leiðrétt.  

Mjög langt er síðan jafnmargir reykvískir grunnskólakennarar hafa skilað inn uppsagnarbréfi eftir að skólastarf er hafið eins og nú í haust. Venjan hefur verið sú að kennara þrauka fram á vor og segja þá skilið við starf sitt. Ófremdarástand blasir við í grunnskólum borgarinnar vegna þessa.

Grunnskólakennara þyrstir í að frá þau skilaboð frá nýjum meirihluta að hann vilji koma til móts við þá. Notið tækifærið og hleypið nýju lífi í skólana.  

Vonin er það sem við þurfum þessa dagana, von um að þeir sem hafa tekið við völdum vilji gera betur í að hlúa að skólastarfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Við skulum sannarlega vona að það gangi betur, þó ég verði samt að minna fólk á að það dugði skammt seinast þegar sami meirihluti var við völd. Því miður. En það er hægt að laga margt og breyta áherslum og til þess þurfa báðir að vilja breyta, ég trúi því að það sé hægt. Held reyndar að sama lýsing og þú ert með hér að ofan eigi líka við um leikskólann. Og auðvitað er það áhyggjuefni að við missum hæft fólk út úr þessum kerfum. Við það verður kostnaður samfélagsins til langs tíma allt of mikill.

Kristín Dýrfjörð, 12.10.2007 kl. 19:24

2 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Ég er algerlega með það á hreinu að þessi meirihluti hafði 12 ár til að laga kjör þeirra stétta sem hér um ræðir.

Við sem stöndum í framvarðarsveit stéttfélaganna verðum að koma þessum sjónarmiðum til þeirra sem fara með völdin.

Það er skylda okkar bæði gagnvart félagsmönnum okkar en ekki síður gagnvart samfélaginu.

Það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkur að upplýsa valdhafa um ástandið og möguleika þeirra til að leysa þau mál sem brýnust eru.

Það brýnast er, er að laga launakjör kennara og annarra sem starfa innan skólanna.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 12.10.2007 kl. 21:25

3 Smámynd: Inga María

Þar sem ég er í mínu orlofi þá hefur verið mikið um að kennarar komi hér við í kaffi en nú hef ég fengið nóg....þeir koma svo þreyttir hingað að mín litla orka flýgur út um gluggann eins og skot.  Álagið er að fara með mitt samstarfsfólk og ég upplifi að það er eins og kennslan sé komin í annað sætið...aga og uppeldismál séu þunginn í dag og engar lausnir innan skólans.

Inga María, 13.10.2007 kl. 15:10

4 identicon

Heil og sæl.

Já það má segja að sviptingar séu í borgarmálunum. En mér óskiljanlegt af hverju þú hefur meiri væntingar til þeirra sem völdin hafa nú en áður, allt er þetta sama liðið og hefur verið undanfarin 12 ár og því ættu kjör kennara að vera orðin betri. Hins vegar reyndi aldrei á hinn meirihlutann hvað launahækkanir varða og því verður enginn samanburður hvorki á vilja né getu þeirra til að koma á móts við kennara og reyndar aðrar stéttir sem búa við slök launakjör.

Skilaðu kveðju í bæinn...Helga Dögg

Helga Dögg (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 18:13

5 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Helga.

Bara vegna þess að vonin er það er það eina sem eftir er.

Eins og fram kom í færslu Ingu Maríu þá eru kennara örmagna.

Vonin um að þeir sem fara með völdin vilji gera bragabót í málefnum grunnskólans var fyrir bí.

En það má þó ekki gleyma að þessir sömu flokkar fengu 12 ár til að bæta kjör kennara en gerðu ekkert!!!!

Tíminn er að renna frá okkur

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 13.10.2007 kl. 19:51

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Auðvitað er það rétt að þeir sem eru í forsvari fyrir stéttarfélögin verða að vekja athygli á málum skólanna. Og þau mál mega ekki drukkna í umræðum um orkuveitur og skipulagsmál. Það er okkar hlutverk, félagsmanna í hinum ýmsu flokkum sem standa að nýja meirihlutanum, að koma skilaboðum til okkar fólks. Sannarlega vona ég að það ekki bara hlusti, heldur framkvæmi líka. Ég held að skólakerfið sé að róa sinn lífróður og það verði að setja út björgunarbáta en líka að vinna í því að fyrirbyggja frekari mögulega skaða. Vinna með undirstöðurnar.

Kristín Dýrfjörð, 14.10.2007 kl. 03:58

7 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Þorgerður þú talar um að margir kennarar hafi skilað inn uppsagnarbréfum eftir að skóli hófst í haust.  Ertu með einhverjar tölur í þessu sambandi´?  Ég sjálf hef ekki heyrt um marga.  Ekki er það vænlegt miðað við ástandið sem var í upphafi skólaárs.  En ég er sammála þér að meðan við erum enn í þessu starfi þá er vonin það eina sem eftir er.  Þegar við missum hana þá gerum við eins og hinir að skila inn fj.... uppsagnarbréfinu.  Því vona ég að kennaradóttirin Oddný komi til með að standa sig vel.  En með áhyggjur foreldra þá hef ég nú ekki orðið neitt sérstaklega vör við þær, foreldrar er sá hópur sem mætti láta betur í sér heyra þ.e.a.s ef þeir hafa einhverjar áhyggjur af þessum málum. 

Rósa Harðardóttir, 15.10.2007 kl. 19:52

8 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Ég var með stóran trúnaðarmannafund í dag og þar voru málin reifuð.

Fram kom hjá trúnaðarmönnum að nokkrir samkennarar hefðu þegar skilað inn uppsagnarbréfum vegna lélegra launa.

Heimavinna trúnaðarmanna fólst í því að komast að hversu margir kennarar þetta eru og koma þeim upplýsingum síðan til skila til KFR.

Þegar þetta er skoðað í því ljósi sem staða grunnskólans var í haust þá er ekki bjartur vetur framundan.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 15.10.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband