Lítil saga

Mér finnst gaman að segja sögur.

Þær þurfa helst að vera sannar.

Þær mega vera ýktar.

Við sátum við matarborðið í síðustu viku, fjölskyldan á Grettisgötu og vorum að spjalla.

Krökkunum finnst gaman þegar við segjum sögur af þeim þegar þau voru lítil, allir verða fá að heyra eitthvað um sig.

Ein saga sem ég segi af sjálfri mér finnst þeim ákaflega fyndin, það er líka svo gaman að heyra hjá þeim hvernig þau upplifa hana misjafnlega eftir því sem þau eldast.

Hún er svona:

Þegar ég kynntist pabba ykkar þá átti hann einn djúpan disk, einn grunnan disk, einn gaffal, einn hníf, eina skeið og einn litin pott til að sjóða súpu eða gera indíána pottrétt sem honum þótti svo góður.

Það fyrsta sem ég varð að gera þegar ég flutti inn var að kaupa til viðbótar, einn grunnan disk, einn djúpan disk, einn gaffal, einn hníf, eina skeið og einn pott.

Potturinn sem ég keypti var 25 lítra pottur sem enn er til og notaður af öllum sem þurfa að sjóða mikið. Allir í hverfinu vita af þessum potti og fá hann lánaðan fyrir stórveislur eða jól og áramót.

Þau spyrja alltaf "af hverju keyptir þú svona stóran pott".

Svarið er ég veit ekki, mér fannst það bara allra nauðsynlegasta sem ég gæti lagt til í búið.

Núna brá svo við að eldri dóttir okkar horfði á pabba sinn áhyggjufullu augnaráði og hafði á orði: aumingja þú pabbi, þegar mamma kom heim með pottinn þá hefur þú séð sæng þína útbreidda og vitað að þú ættir eftir að sitja uppi með mörg börn.

Þá svaraði pabbinn ekki bara mörg börn heldur líka nóg af mat. 

Segið svo að maður skrifi ekki sína eigin framtíð sjálfur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband