Heimanám í 2-4 bekk

Það kemur mér ekki á óvart að það skuli vera skiptar skoðanir hjá kennurum og foreldrum um gildi heimanáms.

Við tölum um þjálfum í lestir sem er nauðsynleg þegar börn eru að ná tökum á þeirri list.

Að sjálfsögðu þarf lestur að vera hluti af daglegu lífi alla daga ef við ætlum að nota lestur og skrift sem samskiptamáta samfélagsins.

Oft hefur borið á góma umræðan um heimanám í menntaráði RVÍK og þá aðallega í sambandi við lengdan skóladag. RVÍK býður nemendum í 2-4 bekk 5 tíma á viku til viðbótar lögbundinni kennslu.

Þetta var gert til að jafna stöðu foreldra sem gátu keypt svo kallaða heimavinnuaðstoð í sumum skólum borgarinnar.

Þannig var komið til móts við þá sem ekki höfðu ráð á því að borga fyrir heimavinnuaðstoð eða foreldra í þeim skólum þar sem ekki var boðið upp á heimavinnuaðstoð í skólanum

Gefnar voru út leiðbeinandi reglur um  hvernig skyldi notast við þessa tíma en síðan var skólum gefið frjálsræði hvernig þeir væru nýtir.

Flestir skólar innlimuðu þessa tíma í stundaskrá nemenda og fjölguðu þannig kennslustundum.

Margir skólar hafa það að leiðarljósi að heimanám nem í 2-4 bekk verið því einungis heimalestur.

Nokkrir skólar hafa þetta að engu og heimanám er með óbreyttu sniði þrátt fyrir fjölgun kennslustunda.

Mjög fáir skólar hafa merkt þessa tíma sérstaklega á stundaskrá sem heimavinnutíma og er það í sjálfvaldi foreldra hvort nemendur séu í skólanum þessa tíma og vinna heimavinnu undir handleiðslu kennara eða hvort þeir fari heim og vinni vinnuna.

Fyrir menntaráði liggur fyrirspurn um hvernig þessir tímar hafi komið til framkvæmda og hvernig þeir hafa nýst nemendum. Hér er megin spurningin hvort þessir tímar hafi jafnað stöðu nemenda hvað varðar heimanám. þar sem það er þekkt að heimanám ýti undir mismunun.

Mér varð þessi fullyrðing ofarlega í huga þegar ég sat á fyrirlestir hjá formanni einstæðra foreldra þar sem hún sagði frá húsnæðishrakningu skjólstæðinga félagsins. þar sem margar fjölskyldur deildu húsnæði sem félagið leigði einstæðum foreldrum.

Þetta er saga allt of margra sem vakti mig til umhugsunar um stöðu barna í þjóðfélaginu og að skólinn á með öllum ráðum að draga úr mismunun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Ég var umsjónarkennari í 2. eða 3. bekk þegar þessari stund var bætt við. Við sáum okkur leik á borði og ætluðum að takmarka heimanám við heimalestur.  Þegar við kynntum þetta á foreldrafundi að haust þá risu foreldrar upp og mótmæltu, þeir vildu heimanám.  Þeir vildu fá tækifæri til að fylgjast með og aðstoða sín börn með námið.

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 13:36

2 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Rósa hvers vegna heldur þú að þessi tillaga hafi mæt mótspyrnu.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 23.3.2008 kl. 13:48

3 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Vegna þess sem betur fer þá er foreldrum umhugað um velferð barna sinna.  Þeir vilja hafa áhrif og þeim finnst flestum þessum tíma vel varið.  Þetta er sem betur fer gæðastundir á flestum heimilum.  En það má samt ekki gera lítið úr þeim skoðunum foreldra sem eiga börn þar sem þessi tími er hreinasta helvíti það veit enginn fyrr en reynir.

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 13:52

4 Smámynd: Þórhildur og Kristín

Takk Þorgerður fyrir að vekja athygli á því hvað börn alast upp við ólíkan kost. Hér á landi búa börn sem aldrei er talað við nema þá helst í skólanum, börn sem ganga í fötum sem aðrir gera grín að þeim fyrir (jafnljótt og það er), börn sem snerta aldrei á hljóðfæri nema hugsanlega í leikskóla, börn sem sofa að jafnaði sex klukkutíma á hverri nóttu enda enginn að fylgjast með að þau hætti í tölvunni eða að horfa á dvd, börn sem borða skyndimat í hvert mál og þekkja ekki að fjölskyldan sitji saman til borðs, börn sem fara aldrei í tjaldferðalag, á hestbak, að veiða, á skíði, á skauta, í sund, til útlanda eða í leikhús, börn sem búa við sífeldda togstreitu á heimili og vansæld af ýmsum toga. Börn hópa sig saman eftir stétt og stöðu og hafa svo sem gert það áður í sögunni (sbr. t.d. braggakrakkana) en staðurinn þar sem þau eiga skilyrðislaust öll að sitja við sama borð, í öllu tilliti, er grunnskólinn, skyldunámsstigið í lífi þeirra.

Þórhildur og Kristín, 23.3.2008 kl. 14:03

5 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

einmitt foreldrum er umhugað um velferð barna sina.

En við verðum líka að hafa í huga að velferð barna byggist á að leika sér og vinna verkefni sem þau velja sér sjálf.

Tími sem börn eru farin að vera í skóla er langt umfram það sem var fyrir fáeinum árum og ekki hægt að leggja það að jöfnu við það sem foreldrarnir þekkja sjálfir.

þú talar um martröð foreldra og barna við heimanám. Er það eitthvað sem við í grunnskólanum eigum að vita af en ekki að bregðast við.

það er ekki svo ýkja langt síðan nem hættu að fara með handavinnupokana sína heim sem síðan var gefið fyrir í handmenntatíma.

við þekkjum sögur það sem frænkur og ömmur voru kallaðar til rétt fyrir annarlok til að hjálpa til við saumaskap og bróderi.

stelpurnar sem áttu hjálpsamar frænkur og ömmur og mömmu fengu síðan hlutina sína setta á stall á handavinnusýningunni og einkunnin var eftir því.

þetta var aflagt vegna tíðarandans og mótmæla.

er heimanám í öðrum námsgreinum eitthvað öðruvísi?

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 23.3.2008 kl. 14:04

6 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

takk Þórhildur.

börn verða að sitja við sama borð í grunnskóla það er skylda okkar sem vinnum það að veita þeim öryggi og jafnt atlæti.

heimanám er eitt að því sem ýtir undir mismunun. heimanám sem síðan er metið í grunnskólanum til einkunna.

foreldrar geta vel fylgst með þroska og áhugasviði barna sinna í gegnum leiki spil og önnur áhugamál en þurfa ekki einkunn skólans til að sjá framfarir barna sinna.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 23.3.2008 kl. 14:09

7 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Heimanám er arfur frá því þegar skólar voru tvísetnir og skóladagur mun styttri en nú er. Við búum í breyttu þjóðfélagi. Nú ætti að vera hægt að koma þessari vinnu fyrir innan skóladagsins sem er nógu langur fyrir börnin.

Hef grun um að sumir foreldrar vilji börnum sínum svo vel að þeir telji að þeim sé hollast að læra enn meir. Þar gleymist oft að magn er ekki endilega ávísun á gæði. Ég er þeirrar skoðunar að gengi okkar í PISA könnunum megi að hluta til rekja til þess að við ætlum börnunm of mikið og þau komist hreinlega ekki yfir það sem þeim er ætlað, niðurstaðan verði að þau læri minna en ella.

Veit ekki hvað er til í þessu en mér blöskrar það sem þau eiga að læra t.d. fyrir samræmd próf í náttúrufræði. Er sjálf líffræðingur. Ef þau næðu að skilja þó ekki væri nema brot af námsefninu ættu þau í litlum vandræðum með menntaskólaefni, jafnvel háskólaefni. En þeim er ekki ætlað að skilja, bara muna til að skila af sér í prófi. Að því loknu gleymist efnið af því skilningurinn var ekki fyrir hendi, námsefnið var of mikið og yfirborðslegt. Held að þetta sé of algengt í íslenskum skólum.

Fór út fyrir efnið, hvað um það, takk fyrir mig.

Kristjana Bjarnadóttir, 23.3.2008 kl. 21:22

8 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Nei Þórólfur það getur verið að þetta séu ekki gæðastundir á flestum heimilum því miður, gott ef svo væri. Þar sem ég er foreldri líka þá hef ég reynt allar tegundir af stundum í sambandi við heimanám, gæðastundum niður í hreint helvíti.

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 21:23

9 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Kristjana námskráin er svo viðmikil að þó að heimanám sé til staðar er aldrei hægt að tæma hana. Og svo er spurning hvort kennt sé til skilnings. Það er eitt að "kenna", fara yfir námsefni og  að kenna til skilnings. Að kenna vegna prófs getur hindrað skilning, eða spyrja spurninga þar sem aðeins eitt svar er rétt hindrar skilning og að reyna að komast yfir of mikið efni það hindrar skilning.

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 21:29

10 Smámynd: Þórhildur og Kristín

Sammála ýmsu hér, svo sem Þórólfi um að afleggja heimanám og Þorgerði um að benda á mismununina sem það felur í sér.

Á móti kemur að sá grunur læðist að manni að þetta sé eina stundin þar sem sum börn hafa aðgang að foreldrum sínum og jafnvel þótt hún sé í mörgum þeim tilfellum uppfull af togstreitu þá er neikvæð athygli (fyrir barninu) betri en engin.

En skólinn getur ekki skipt sér af þessu og sett fram sem rök með heimanámi að börn fái svo fáar samverustundir með foreldrum ... enda gerir hann það ekki.

Eins og Rósa bendir á er þetta oft þrautaganga, í bók eftir virtan fræðimann þar sem hann fjallar um ADHD er því til að mynda haldið fram að hóflegur tími til heimanáms fyrir ADHD krakka séu tíu mínútur.

Önnur rök með heimanámi eru að í gegnum það fylgist foreldrar með því hvað börn þeirra eru að fást við í skólanum. Þegar ég var lítil og skólinn var bara til klukkan tólf var talsvert heimanám en foreldrar mínir litu aldrei á það. Skólinn var á einum stað og þau á öðrum. Ætli þetta hafi mikið breyst?

Kjarninn er þessi: Nám fer ekki fram án áhuga, áhugi verður ekki til án gleði og tilfinningar fyrir getu. Ef börnum líður vel þá læra þau (eins og Þórólfur bendir á). Foreldrar tengjast ekki kennaranum og kennarinn foreldrunum nema gott andrúmsloft ríki í skólanum, kennarinn hafi tíma til að spjalla við fólk og allir aðilar kunni lágmarkskurteisi og hafi vilja til samstarfs.

Ánægjulegt hvað umræða Þorgerðar um heimanám vekur marga þanka, vonandi koma fleiri að þessu spjalli áður en því lýkur.

Varðandi það sem Kristjana var að segja þá hefur hún kannski gaman af að heyra það sem Ingólfur Gíslason kennari í Versló sagði á fundi um námsmat í skólum í september 2007. "Próf eru mannskemmandi," sagði hann og taldi upp nokkur atriði sem einkenna einkunnir svo sem að þær eru ekki marktækar, áreiðanlegar eða hlutlægar. Þær sóa tíma og orku nemenda og leiða til svindls. Þær hafa slæm áhrif á tengsl nemenda innbyrðis og á sjálfsmynd allra nemenda, líka þeirra sem fá háu einkunnirnar því þeir verða gjarnan háðir þeim og brotna niður ef einkunnin bregst. Ingólfur spurði samkennara sína: Hvers vegna próf? og svör voru t.d. af því allir hinir gera það, af því að þess er krafist af skólayfirvöldum og til þess að æfa nemandann í að taka próf. Svo er nú það. Hvar fer nám fram í þessu ferli? 

Kv. Kristín.

Þórhildur og Kristín, 24.3.2008 kl. 10:49

11 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Góðir punktar Kristín, þetta seinasta er eins og talað úr mínum munni. Tel einkunnir álíka villandi fyrir þá sem gengur vel og þá sem gengur illa. Sérstaklega á yngri stigum. Þau hafa lítið spágildi um gengi okkar í lífinu síðar meir, lágar einkunnir letja börn til náms, háar einkunni hvetja börn til náms.

Brotið sjálfsálit er vel þekkt afleiðing og getur verið erfitt að segja barni að það geti vel gert eitthvað vel þegar skólinn ítrekar sendir það heim með stimpilinn "þú getur ekki" í formi lágra einkunna. Barnið trúir einkunnunum og sér ekki tilgang í að reyna meira.

Skólafélagi minn sem oft sat á botninum er sá úr hópnum sem gerir það best í dag. Þetta er dæmi um hvað oft er lítið að marka þessi skilaboð skólans.

Á sjálf dóttur sem gekk mjög illa á fyrri stigum grunnskóla, sat með brotið sjálfstraust, grét yfir því að vera tossi. Eftir mikla þrautagöngu, andlega sem líkamlega (læknisrannsóknir vegna mikilla magaverkja og uppkasta) tókst að lyfta sjálfstraustinu og er hún nú að standa sig mjög vel núna. Ég meina mjög vel, langt yfir meðallagi.

Hluti af meðferðinni var að segja henni að það væri ekkert að marka próf. Skrítið að þurfa að segja barni að það sé ekkert að marka það sem skólinn sé að gera.

Kristjana Bjarnadóttir, 24.3.2008 kl. 11:41

12 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Já Þórólfur ég get tekið undir margt af því sem þú segir um próf og læt hér fylgja með bloggfærslu mína frá því í fyrra vor um námsmat en ég hef reynt að forðast próf eins og heitan eldinn. En svarið frá Áslaugu vinkona minni er einnig mjög gott innlegg í þessa umræðu: http://www.rosa.blog.is/blog/rosa/entry/266084/#comments

"gamal færslan"

Frá því að ég byrjaði að kenna hef ég haft áhuga á námsmati.  Fyrsti skólinn sem ég kenndi í var skóli þar sem skapandi vinna var í hávegum höfð og skólastjórinn sagði mér að próf væru helst ekki lögð fyrir nemendur fyrr en í 7. bekk en það var síðasti bekkur skólans.  Þetta fannst mér flott og hentaði mér vel.  Ég byrjaði með yngri krakkana og námsmat var í formi umsagna um allt það sem skipti máli í skólagöngu þeirra og í formi reglulegra námsmatsviðtala við forráðamenn.  En þetta átti eftir að breytast.  Þegar nemendur komu í 4. bekk  var farið að lauma prófum inn því það var  þægilegt fyrir kennarann, gömul próf til í möppu og annaðhvort gat krakkinn þetta eða ekki.  Smátt og smátt var þetta ofan á hjá flestum kennurum í 4.-7.bekk og próf með tilheyrandi stakri tölu urðu vinsæl.  Nú þegar sonur minn var  að klára 7. bekk í þessum sama skóla var spennandi að sjá vitnisburðinn.  Hann fékk hann afhentan við virðulega athöfn á hátíðarsal skólans ásamt rós og kaffiveitingum.  Svo kom blaðið upp úr umslaginu.  Og viti menn eftir 7 ára skólagöngu fékk barnið vitnisburð í 16 fögum í formi einkunna á skalanum 0-10. Ekki eitt orð um hvernig honum hefði gengið, þakkir fyrir samveruna eða óskir um gæfu í nýjum skóla.  Ég varð vitni að samræðum milli  drengja úr vinahópnum þegar þeir tóku að bera saman bækur sínar eins og venja er. 

A: Heyrðu hvað fékk ég eiginlega í kristinfræði?

B: Já kíkjum á það.

A: Ha það vantar einkunn í kristinfræði.

B: Já manstu ekki við tókum ekkert próf í því.

A: Mér finnst nú að við hefðum getað fengið einkunn þrátt fyrir það.

Mér fannst gaman að heyra að 12 ára drengir hafi sömu skoðun og ég.

En er námsmat sama og prófseinkunn eða liggur eitthvað meira þar að baki? Ég er þeirrar skoðunar að víða sé pottur brotinn í vinnu við námsmat og vil sjá aukna umræðu og framfarir í námsmati í grunnskólum landsins.

Rósa Harðardóttir, 24.3.2008 kl. 16:28

13 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Eins og staðan er í dag er þetta í höndum kennara en ekki má vænta mikilla breytinga ef heimili og skóli vinnur ekki saman.  Með góðri samvinnu og umræðum um skipulag t.d á kynningarfundum að hausti þá er þetta oftast tekið upp.  Ég geri ekki ráð fyrir að þú sért sá eini í foreldrahópnum sem mundir vilja breyta þessu.  Eins geta skólastjórar ákveðið að hafa heimanám með minnsta móti og beint þeim tilmælum til kennara. En fyrst og fremst er þetta ákvörðun kennarans kennarateyma.

Rósa Harðardóttir, 24.3.2008 kl. 18:05

14 Smámynd: Anna Þóra Jónsdóttir

Sæl. Ég er kennari í 3. bekk (með 25 nemendur) og ég vil ekki leggja heimanám niður.  Ég sendi heimanám heim einu sinni í viku í mínum bekk og nemendur hafa 6 daga til að vinna og skila mér því til baka. Heimanámið er þó aldrei mjög mikið en það er stundum dálítið krefjandi eins og í söguritun og stærðfræði. Næði til söguritunar er t.d. oft mun meira heima heldur en í skólanum eins og gefur að skilja, sérstaklega í stórum bekkjum.

Ég vil bjóða upp á heimanám og lít ekki á það sem neina kvöð eða friðarspilli á heimili. Mér finnst umræðan öll snúast um að þetta sé svo slæmt fyrir börnin/foreldrana og mér finnst það svolítið varasamur vinkill. Lestur telst (að mínu viti) heldur engin áþján fyrir nemendur, heldur ánægjuleg og nauðsynleg athöfn sem iðka ber reglulega. 

Heimanám finnst mér í raun vera nokkur konar vísir að vinnuvenjum framtíðar þ.e. þú lærir að skipuleggja þig, klára verkin þín og leggja metnað í þau. Heimanám gefur foreldrum líka hugmynd um stöðu nemandans í námi og fjölmörgum foreldrum finnst það gott. Kannski ættum við bara að bjóða upp á heimanám fyrir þá sem vilja....sleppa hinum. Það er kannski lausnin

Anna Þóra Jónsdóttir, 26.3.2008 kl. 00:53

15 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Takk fyrir innlegg ykkar um heimanám.

við eigum að vera gagnrýnin og halda uppi lifandi umræðu um skólamál.

við megum ekki gleyma að skólinn er stofnun sem við eigum ÖLL.

umræðan má því ekki einskorðast við skólafólk heldur þurfum við að hluta að foreldra og aðra þá sem telja grunnskólann til lykileininga hvers samfélags.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 26.3.2008 kl. 14:58

16 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

ég meinti að sjálfsögðu HLUSTA

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 26.3.2008 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband